Hallgrímur Helgason, tær SNILLD!

 Hér er pistill Hallgríms úr Fréttablaðinu í dag, þetta verður varla sagt betur.
"Við skulum ekki dæma
Vikan hófst með afsögn ráðherra jafnréttis- og barnamála í Noregi. Hún hafði ráðið vinkonu sína í eftirsótt starf Umboðsmanns barna. Sú sagði einnig af sér.

 Senn er heill vetur liðinn síðan ljóst varð að þáverandi borgarstjóri hafði samþykkt að framselja þekkingu og mannauð Orkuveitu Reykjavíkur til tuttugu ára, án þess að hafa minnstu hugmynd um það. Minnisblað þess efnis týndist á heimili hans og hefur enn ekki komið í leitirnar. Samt situr umræddur maður enn í borgarstjórn, er oddviti stærsta flokksins þar, og ætlar að verða borgarstjóri aftur að ári. En við skulum ekki dæma hann hart. Hann er viðkunnanlegur maður sem vill vel og á fjölskyldu sem margir þekkja.

Nú eru tveir mánuðir liðnir frá því að fjármálaráðherra tók þá bíræfnu ákvörðun að ráða son gamla yfirmanns síns í eftirsótta stöðu héraðsdómara. Son fyrrum forsætisráðherra síns. Son fyrrum flokksformanns síns. Son þess manns sem hann á ráðherradóm sinn að þakka. Sem gerði honum kleift að ráða soninn. Samt situr ráðherrann enn á sínum stóli (rétt eins og dómarinn). En við skulum ekki dæma hann. Hann er góður drengur og vill vel. Og hann á fjölskyldu sem mörg okkar þekkja.

Gleymdist að læsa

Nú er vika síðan upp komst um dómaramistök í Gettu betur. Vegna þeirra tapaði Kvennaskólinn fyrir MH og er úr leik í keppninni. Dómarinn viðurkenndi mistök sín og kvaðst leiður yfir þeim en RÚV ætlar hvorki að snúa tapi í sigur né láta svo lítið að endurtaka viðureignina. En við skulum ekki dæma yfirmenn RÚV. Þeir eru önnum kafnir og leiðrétting myndi bara valda þeim óþægindum.

Nú er rúm vika síðan frægasti sakamaður landsins slapp úr haldi lögreglunnar í Reykjavík. Gleymst hafði að læsa klefa hans yfir nóttina. Gleymst hafði líka að læsa geymslu á fangelsisganginum þar sem flóttakaðlarnir eru geymdir. Strokufanginn fannst um kvöldið í skáp í Mosfellsbæ, en tókst með ævintýralegum flótta sínum að sveipa sig enn meiri frægðarljóma. Jafnvel má segja að þjóðin hafi fengið vissa samúð með kauða, um leið og lögreglan varð að athlægi. Nýskipaður lögreglustjóri harmar atvikið og segir málið í rannsókn. Flestum fréttatímum vikunnar lauk með því að haft var eftir honum að málið væri "enn til rannsóknar". Hversu langan tíma getur tekið að komast að því hver gleymdi að læsa klefanum og hvers vegna? Þrátt fyrir allt þetta hefur engum komið til hugar að lögreglustjórinn ætti kannski að segja af sér, ef ekki fyrir kæruleysi sinna manna, þá fyrir hinn furðulega seinagang rannsóknarinnar. En við skulum ekki dæma manninn. Hann er nýkominn í embættið og á alla sénsa skilið.

1,2%

Nú eru nokkrar vikur síðan ritstjóri Morgunblaðsins setti fram í leiðara ósannindi um fráfarandi borgarstjóra varðandi frægt læknisvottorð. Ásökun sem síðan var hrakin af þeim sem málið þekkja. Samt sem áður hefur ritstjórinn enn ekki séð ástæðu til að leiðrétta eða biðjast afsökunar á lygum sínum. En við skulum ekki dæma hann. Hann hefur haft það fyrir ævistarf að skrumskæla sannleikann og er því vorkunn.

Nú eru fjórar vikur síðan nýr borgarstjóri tók við í Ráðhúsi Reykjavíkur undir háværu bauli. Í kosningum hlaut hann stuðning 10% borgarbúa. Daginn sem hann tók við var fylgi einmenningslistans hins vegar orðið 6% og í nýjustu skoðanakönnun Capacent mældist það 2,8%. Samt ætlar borgarstjóri að sitja sem fastast. Og við skulum ekki dæma hann. Hann hefur átt við veikindi að stríða og mörg okkar þekkja fólk úr fjölskyldu hans og vita sem er að ekki er auðvelt að vera borgarstjóri í óþökk borgarbúa.

Hver tekur svo við af honum að ári? Samkvæmt hinu ofurnæma pólitíska nefi Sjálfstæðisflokksins ætti það helst að vera Kjartan Magnússon, en hann hlaut einmitt 1,2% stuðning í embættið í fyrrnefndri könnun. En við skulum ekki heldur dæma hann þegar þar að kemur. Það verður ekki auðvelt fyrir nýjan borgarstjóra að taka við af manni sem nýtur helmingi meiri stuðnings."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Þetta er svo sannarlega "Tær snilld", enda skrifað af snillingi, sem segir allt sem segja þarf.  Takk fyrir að vekja athygli á þessum pistli.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 23.2.2008 kl. 15:47

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Greinin er mjög góð, en hvernig stendur á því að hann minnist ekkert á umdeildar mannaráðningar Össurar Skarphéðinssonar eða önnur umdeild mál sem Samfylkingarmenn hafa komið nálægt?

Jóhann Elíasson, 24.2.2008 kl. 10:46

3 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Mér virðist hann nú bara kíkja svona vítt um sviðið í nýjustu dæmunum og þau eru öll ansi sláandi. Ætli það sé bara ekki plássið í blaðinu sem takmarkar það hvað hann fer vítt um, en það er ljóst að hann hefði örugglega efni í bók ef hann færi þó ekki væri nema 10-15 ár aftur og sennilega yrði hún í fleiri en einu bindi, en örugglega ekki mjög spennandi, oftast sömu fingraförin.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 24.2.2008 kl. 12:16

4 Smámynd: Jóhann Elíasson

Hafsteinn, það er ekki hægt að nefna plássleysi í blaðinu þarna, því í þessu tilfelli var alveg hægt að "umskrifa"  hluti og maður eins og Hallgrímur hefði nú farið létt með það "hefði hann kært sig um".

Jóhann Elíasson, 24.2.2008 kl. 13:06

5 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

? Mér finnst greinin snilld eins og hún er og hefði ekki viljað "umskrifa" hana neitt, alls ekki.....

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 24.2.2008 kl. 13:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 938

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband