Frábær "Halli".

Hallgrímur Helgason fer á kostum í dag og sannari hefur hann sjaldan hljómað. Svo sem ekki fréttir fyrir marga, en hér afar vel samandregið, mikill sannleikur. 
"Halli ríkissjóðs
Baugsmálinu lauk með lágværu puðri.

Baugsmálinu lauk með lágværu puðri. Harðsvíraðir menn höfðu blásið sig helbláa í framan um sex ára skeið þannig að um tíma var blaðran farin að skyggja á sól þeirra sjálfra, en nú endar þetta svona: Síðasta loftið í blöðrunni taldi tvo stutta andardrætti og lak út úr hæstarétti með lágværi puðri.

Þjóðin andaði léttar en Baugsmenn öllu þyngra. Hún var laus úr sex ára fangelsi Baugsmálaþófs en þeir gengu brott með blett á æru. Sækjendur voru hins vegar bjartsýnir sem endranær: Enn má taka Baugsslaginn á skattasvellinu og svo þarf endilega að búa til nýtt dómstig, úr því hin tvö virka svona illa.

Þingmenn og ráðherrar segja að stjórnvöld verði að læra af þessu illa máli en klappstýrur klögubósa stíga lokadansinn fyrir flórmann Flokksins og gera hróp að hverjum þeim sem hefur eitthvað við málið að athuga. Eftir að hafa masað sig til Þrasborgar hefur Björninn lært að þegja en húnarnir væla.

Formaður næststærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar má ekki tjá sig um lokadóm í Baugsmáli. Og hún ásamt þingflokksformanni sínum á að sýna samstarfsflokknum í ríkisstjórn þá "tillitssemi" (eins og þingmaður Sjálfstæðisflokksins orðaði það í útvarpi liðinnar viku) að tjá sig ekki um Baugsmál. Hér er það sagt hreint út að Baugsmálið hafi verið og skuli vera mál Sjálfstæðisflokksins. Gott að fá það loks á hreint.

Gott er líka að rifja upp orð sömu drengja sem hrópuð voru í hvert sinn sem foringinn fyrrverandi tjáði sig á umdeildan hátt: "Hefur forsætisráðherra ekki málfrelsi?" Segl eru til að haga eftir vindi.

Sárust er niðurstaða Baugsmála þó fyrir margsærðan ríkislögreglustjóra, sem fram að þessu hafði verið eini maðurinn sem hlotið hafði einhvers konar dóm í málinu, þegar honum var meinuð frekari aðkoma að því vegna ummæla í fjölmiðlum. Var fólk búið að gleyma því stutta gamanatriði í miðjum maraþonharmleik?

Ríkislögreglustjóri fellur hér á enn einu prófinu í hæstarétti. Hvernig honum tókst að klúðra hinu skothelda málverkunarfölsunarmáli var óskiljanlegt afrek og þá ber að minnast þess er hann þverskallaðist við að rannsaka olíusamráðið góða. Og enn á ný kemur Hallinn góði og leggur heilan milljarð úr ríkissjóði á borð í hæstarétti og fær fyrir það tvær kleinur og eina bóndabeygju.

En þá skal bara stofnaður nýr og betri dómstóll handa honum. Enn skal mulið undir óhappadrenginn. Það skiptir engu máli hvaða axarsköft hann fremur, ríkissjóður er alltaf til í að borga fyrir Halla sinn. Þessi krókur var snemma beygður: Þegar pilturinn féll á landsprófi gengu Mogginn og Flokkurinn í það að leggja prófið niður. Þegar Halli kom heim frá veturlöngu námi í Flórída var hann gerður að forstjóra fangelsismála, embætti sem ekki var áður til. Næst var hann orðinn varalögreglustjóri í Reykjavík. En þar sem lögreglustjórinn var eitthvað lengi að hætta bjó Flokkurinn til aðra ríkisstofnun handa sínum manni, embætti sem var öllum lögreglustjórum æðra. Og þegar hinn nýbakaði ríkislögreglustjóri varð fyrir því óláni að hella víni yfir mann á bar og hóta honum lífláti (sem hlýtur að vera fremur óskemmtilegt að heyra frá yfirmanni Víkingasveitarinnar) var það litla leiðindamál látið gufa upp úr brynvörðum sakaskrám ríkisins. Í stað þess að fá þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm fékk lögreglustjórinn að sitja áfram í embætti (bara hægt á Íslandi) og eyddi næstu sex árum í að knýja fram sömu refsingu á óvin Flokksins númer eitt.

Því Flokkurinn hafði nú gert margt fyrir góðan dreng og því var komið að honum að gera eitthvað fyrir Flokkinn. Baugsmálið kom eins og kallað. En háttsettir gleymdu því að flokksráðnir eru sjaldan mjög hæfir og Halla ríkissjóðs tókst auðvitað að klúðra þessu "pottþétta" máli jafn vel og öllum hinum.

Fáir menn hafa haft jafn mikil áhrif á íslenskt samfélag með axarsköftum sínum og ríkislögreglustjóri. Og enn skulu þau áhrif aukin. Aðeins viku eftir fallið í hæstarétti eru menn farnir að ræða þörf á nýju dómstigi; sérstökum millidómstól til að koma í veg fyrir fleiri háðungar í hæstarétti. Samkvæmt fréttum á hann annaðhvort að heita Lögrétta eða Landsyfirréttur. Leiðrétta og Landsföðurréttur væru þó fremur nöfn við hæfi. Og allt er þetta í boði Sjálfstæðisflokksins, stærsta hluthafans í eignarhaldsfélagi því sem nefnist ríkissjóður. Ekki furða að varðhúnar Valhallar glefsi að þeim sem benda á sukkið. En ætlar Samfylkingin að sitja þegjandi undir þeim ráðherrum sem enn eina ferðina taka upp heftið fyrir Halla sinn? Eða er ekki nóg að komast í ríkisstjórn til þess að uppræta það sem rotið er á Íslandi?"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 947

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband