Mér snerist hugur varðandi lögun eins gluggans. Því þurfti að útbúa nýja pöntun. Og henni fylgdi nýtt verð. Þar sem krónan hafði fallið daginn áður var nýja verðið 90.000 krónum hærra. Af tilviljun mölluðu viðskiptafréttir í útvarpi á borði Húsasmiðjumanns. Einhver Benderinn sagði allt benda til þess að krónan myndi "styrkjast þegar líða tekur á daginn". Ég gerði mér upp frekari vandamál varðandi opnanlegu fögin og eftir að hafa hlustað vel á Morgunkorn Glitnis daginn eftir mætti ég í Húsasmiðjuna með nýja pöntun. Og fékk nýtt verð. Verð dagsins var 40.000 krónum lægra en gærdagsverð sem var 90.000 krónum hærra en fyrradagsverð. Jæja, jæja. Ég ákvað að kýla á þetta. En þá fékk ég það svar að "endanlegt verð" væri miðað við "afhendingardag". Samkvæmt nýjustu áætlun eiga gluggarnir að lenda í lok júlí. Frá því að pöntun fór í loftið hefur krónan fallið á hverjum degi.
Þegar tilveran snerist um dagróðra sættu menn lagi til að komast út úr brimgarðinum. Í flotkrónulandinu á maður ekkert val. Allt upp á von og óvon.
Sjómaður fræddi mig nýverið um sjómannslíf okkar daga. Það snýst ekki lengur bara um afla, veður og enska boltann. Nú hlusta sjómenn jafn spenntir á verðfréttir og veðurfréttir. Því aflaverðmætið miðast við evrur og hluturinn hásetans því jafn fljótandi og krónan. "Á leiðinni inn úr síðasta túr hækkaði verðmæti aflans um tíu milljónir. Bara á leiðinni inn fjörðinn. Verst að helvítið skuli ekki vera lengri."
Manni verður hugsað til þeirra sem véla með alvöru upphæðir, fólks sem pantar ekki bara glugga í eigin hús heldur reisir heilu blokkirnar, borgar laun og tekur milljónalán. Hvernig getur það sætt sig við að vinna frá morgni til kvölds með þessu skringilega verkfæri sem þjóðarmyntin er orðin? Króna að morgni er hálf að kvöldi
Það má líkja þessu við fótboltaleik þar sem boltinn breytir sífellt um lögun. Í miðri fyrirgjöf er hann allt í einu orðinn að körfubolta. En þegar útsparkið er tekið er hann á stærð við tennisbolta. Aðeins eitt er öruggt: Í síðari hálfleik er boltinn orðinn á stærð við golfkúlu og endar svo sem hagl í uppbótartíma.
Það er þessi sveigjanleiki sem forsætisráðherra var að dásama í London í vikunni. Er Geir H. Haarde grínisti?
Daginn eftir bætti hann um betur: Ef kasta ætti krónunni væri dollar skárri kostur en evra. Hér talaði ekki viagra-bryðjandi bjórvembillinn sem kemur reglulega fram á netabol í símatímanum á Útvarpi Sögu, heldur forsætisráðherra Íslands. Hvers konar framtíðarsýn felst í því að ætla að senda barnabörnin út í búð með rakaþvældan dollaraseðil í vasa? Hvar væri slíkur málflutningur boðlegur? Á Cayman-eyjum kannski. En ekki Íslandi.
Á dollara og evru er talsverður munur. Evra er sameiginlegt myntkerfi sjálfstæðra ríkja. Dollari er gjaldmiðill eins lands. Munurinn á því að taka upp dal eða evru jafngildir muninum á því að selja sig og gifta sig.
Forsætisráðherra getur ekki leyft sér að tala eins og símakarl á Sögu. Við þurfum ekki meira dollaragrín heldur tilfinningu fyrir því að ráðamenn okkar hafi einhver ráð. Eins og staðan er nú virðist enginn þeirra geta haft áhrif á gengi krónunnar. Hið fljótandi gengi fylgir engu nema sjávarföllum. Og þótt sjómennskan sé Íslendingum kær er kannski full langt gengið að miða allt okkar líf við flóð og fjöru: Brauðið á borðinu, mjólkin í ísskápnum, innistæðan í bankanum: Allt minnkar það og stækkar eftir stöðu sjávar.
Ef ríkisstjórnin hefur engar hugmyndir aðrar en að halda dauðahaldi í þá skoppandi bauju sem krónan er orðin ætti hún í það minnsta að stofna Verðstofu Íslands, reisa henni hús við hlið Veðurstofunnar og láta útvarpa þaðan verðspá og verðfréttum oft á dag. Það minnsta sem flotkrónustjórnin getur gert er að segja okkur á tveggja tíma fresti hve miklu við höfum tapað. "Bandaríkjadalur, 82 krónur og 50 aurar, hækkandi, eftirspurn ágæt. Evra, 131 króna " "